Dagur 4

Í gær kláruðum við alla grunna og byrjuðum að over-duba sum lögin með auka-gítar, píanói og fleiru. Í dag munum við svo líklega byrja á söng og kannski líka taka upp nokkur öskur. Í gær ætluðum við að taka upp mjálm í ketti en fengum hann ekki til að segja neitt. Á endanum náðum við samt að taka upp spennandi urr úr kettinum sem við munum örugglega nota í eitthvert laganna. Valgeir upptökustjóri fékk að vísu þá hugmynd að henda öðrum ketti inn í hljóðklefann með kettinum okkar. Hann sagði að það væri oft grár síamsköttur á vappi í hverfinu og við þyrftum bara að góma hann og láta kettina tvo tala saman. Við svipuðumst um eftir síamskettinum en fundum hann ekki. Ég sá hann samt um daginn. Hann er mjög skrítinn. Grár á litinn en svartur á löppunum og í andlitinu. Úr fjarlægð lítur þetta út eins og kötturinn sé í svörtum stígvélum og með grímu á andlitinu. Það er frekar dularfullt. Við segjum meira frá þessum ketti síðar.

Georg er kominn aftur á bassann eftir vafasama tognun í gær. Við þurfum að vísu ólíklega að taka upp meiri bassa, en það er gott að hafa Gogga hérna í góðum gír til að taka upp raddir, sérstaklega þegar hann er í svona skemmtilegu lyfjamóki eftir allar töflurnar frá lækninum í gær. Goggi fór til dæmis ekkert heim í gær heldur svaf hann standandi inn í hljóðklefa með hendurnar krosslagðar að brjósti. Mjög eðlilegt. Við komum allavega að honum svona í morgun með lokuð augun. Ég veit ekki meira. BEB


Dr. Phieffer og vitrunin!

Sýkingin sem næstum því gékk að mér dauðum fyrsta daginn var hætt öllum mótþróa og var að gefa eftir í baráttunni við lyfin sem sprautuð voru í botninn minn þegar að röndin var að nálgast hjarta stað. Á sömu hendi á ég núna við annað vandamál að stríða. Svo virðist vera að hún hafi farið alvarlega úr lið. "Glúmur" er erfiður viðfangs og í öllum hamaganginum virðist sem ég hafi þvingað hana í úr festingunni. Bergur Ebbi var að reyna að koma ykkur inní málið í síðustu færslu en auðvitað var fréttafluttningurinn frekar óljós og er ég því að með þessari færslu að reyna að skýra þetta betur fyrir ykkur. Ég hélt fyrst að Varúlfur hefði komið á flugi með brýndar vígtennur aftan að mér eða jafnvel hrökkál eða önnur kynjavera. En samt var ég ekki með neitt opið sár eða bitför heldur lá handleggurinn í einhversskonar slaufu út á hlið. Sársaukanum ætla ég ekki að reyna að lýsa. En í kvölum mínum í sturtu klefanum fór ég að sjá sýnir, hvað svo sem að varð þess valdandi. Jafnvel að það hafi verið sársaukinn!? En ég sá Michael Schumacher sitjast uppí formúlu bíl og veifa mér. Hann var með geisla baug og bjarnarklær og ullaði á mig. Ég ætla ekki að reyna að útskýra þetta sjálfur. En ég væri mjög spenntur fyrir því að einhver lesandi gæti reynt að rína í þessa vitrun.
En á þessum tímapunkti var ég komast aftur til meðvitundar og áttaði mig á því að maður á stærð við Hogward í Harry Potter var að munda nál á stærð við trommukjuða. Í eitt augnablik hélt ég að hann væri að lóga mér, að hann væri bara að binda enda á allar mínar þjáningar með einhverju góðu Gift-i. Breiðholtið nötraði allt, Veinið heyrðist víst á Seltjarnanes líka. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að gera þetta Leathal Wepon style þá var ég sem sagt deyfður og kipptur afur í liðinn af færum lækni úr Heilsugæslunni í Mjódd. Kann ég honum bestu þakkir (ég drep hann) fyrir alla kvölina. Núna er handleggurin á mér allavega ekki lengur í slaufu heldur í einhverskonar sæmilegu prik-formi. Frábært. Ég held þá víst áfram. Ég sem var farinn að hlakka til að horfa á Lost á DVD á Borgarspítalanum eins og búið var að lofa mér. Kannski ég slasi mig bara eitthvað "óvart" fljótlega. Bíðum bara og sjáum. Bestu kveðjur, Goggi K.

Georg fór úr lið

Mér er mikið niðri fyrir þegar ég skrifa þessa færslu. Ég verð því miður að tilkynna ykkur að Georg, bassaleikarinn okkar, snéri sig mjög alvarlega úr lið rétt áðan. Hann var að spila mjög snúna bassalínu í laginu "Keyrum yfir Ísland" þegar við heyrðum hátt og einkennilegt brak og svo mjög hátt Mikka Mús öskur. Við vitum ekki ennþá hvað gerðist, en líklega snérist liðþófi í olnboga yfir framhandleggsbeinið með greindum afleiðingum. Við sendum Gogga beint í kalda sturtu og við heyrum ennþá öskrin koma frá baðherberginu. Við vitum samt ekki hvort öskrin séu vegna tognunarinnar eða vegna kalda vatnsins í sturtunni, en það er líklega nálægt frostmarki. Auk þess settum við klaka í sturtubotninn. Sem er kannski frekar vanhugsað þar sem maðurinn er ekkert skaddaður á iljunum. Jæja.

Þá er það spurning hvort við frestum sessjóninu eða fáum nýjan bassaleikara. Við erum samt ennþá að gera okkur vonir um að Gogga muni batna. Hann sagði allavega við okkur að hann gæti örugglega kippt olnboganum aftur í lið því hann hefði séð Mel Gibson kippa öxl í lið í Lethal Weapon II og þetta ætti að vera mun auðveldara. Auk þess erum við komnir með mjög færan bæklunarlækni á línuna og hann er líklega að fara að bruna uppeftir til okkar á eftir með tösku fulla af lyfjum og gúmmilaði. Sjáum hvað verður. BEB


Dagur 3: Gengur vel

Nú erum við búnir að vera tvo heila daga í upptökuverinu og það gengur mjög vel. Í raun gengur svo vel að við munum örugglega sitja hérna og drekka kaffi í allan dag. Við viljum ekki að þetta gangi of vel. Í gær tókum við upp grunna að sex lögum: Partí-öld (My Date at Six). Það kostar allan heiminn. Hamingja. Flogin er finka. Frá gleymdu vori og All the Horses are Gone. Þá byrjuðum við einnig á grunninum á laginu "Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins" en hættum seint í gærkvöldi þegar við vorum komnir í svefngalsa. Þá vorum við byrjaðir að experímenta með batteríslausan dverg-magnara. Málið var það að við náðum ákveðnu sándi með því að spila kassagítar í gegnum þennan magnara og sándið varð svo sérstaklega "athyglisvert" þegar batteríið gaf sig. Það fannst Míó upptökustjóra allavega og Valgeir var einnig hrifinn af þessu. Þegar þetta gerðist var upptakan hinsvegar ekki í gangi og svo tókst okkur aldrei að endurtaka þetta þegar við reyndum aftur með segulbandið í gangi.

Varðandi upptökuaðferðir. Við tökum grunnana upp á segulband, eins og það var gert í gamla daga, en svo eru þeir keyrðir yfir á stafrænt form í tölvunni og hljóðblandaðir þar. Auk þess verða öll over-dub, þ.e. upptökur sem gerðar eru ofaní grunnana (söngur og ýmis hljóðfæri) tekin upp stafrænt ofan í það mix. Við munum hefja það ferli um leið og grunnarnir eru tilbúnir, sem verður örugglega í dag.

Þetta gengur því vonum framar. Upphaflega hugmyndin var að eyða þessari viku í að taka upp grunnana og nota næsta session í ágúst í over-dubin. Við munum hinsvegar ná að byrja á þeim í þessari viku og því mun gefast meiri tími í hljóðblöndun og eftirvinnslu í ágúst og vonandi mun það gefa af sér betri og hljómfegurri plötu. Það erum við allavega vissir um.

###

Þarf að hafa smá grín i þessu bloggi líka. Ég og Georg fórum í Nettó í Mjódd í gær og keyptum nammi fyrir nokkur þúsund kall á reikning hljómsveitarinnnar. Þegar við mættum í stúdíóið urðum við hinsvegar allt í einu mjög paranoid um að Siggi myndi éta upp allt nammið á nokkrum mínútum. Við brugðum því á það ráð að fela nammið á mjög öruggum stað hér inn í hljóðverinu og núna eru allir brjálaðir út í okkur. Ég verð samt að viðurkenna að það fylgir því viss sigurtilfinning að vita af namminu á öruggum stað. Við gætum þurft að láta Sigga éta svona eins og eitt kíló af hlaupi áður en við tökum upp grunninn að "Keyrum yfir Ísland". Þessvegna er gott að nammið sé ekki búið.
BEB


Dagur 2

Gærdagurinn fór að mestu í að stilla upp hljóðfærunum og finna rétta sándið fyrir grunnana. Eftir kvöldmat í gær tókst okkur þó að taka upp tvo grunna. Það voru grunnar að lögunum "Can't Dance" sem mun heita "Taktlaus" á íslensku og laginu "Babarab" sem hefur enn ekki fengið nafn. Ég stakk upp á nafninu "Barbapabbi" en strákarnir neituðu því. Georg vill að lagið heiti "Bí bí og blaka" en okkur finnst það líka lélegt.

Í dag ætlum við að halda áfram að taka upp grunna. Stefnan er sett á að taka upp grunna að lögunum: "Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins", "Hamingja", "My Date at Six" sem heitir "Partí-öld" á á íslensku, "All the Horses are Gone" sem hefur ekki enn fengið nafn á íslensku og "Keyrum yfir Ísland" sem er nýtt lag.

Þegar talað er um "grunn" á lögum er ekki alltaf átt við nákvæmlega sama hlutinn. Sumir láta nægja að taka upp trommur, bassa og kannski ryþmagítar saman sem grunn, en við tökum einnig upp hljómborð og kassagítar þar sem það á við. Þessi hljóðfæri eru sem sagt tekin upp öll saman "live".

Annars höfum við þann háttinn á við þessar upptökur að við verðum hérna í tæpa viku núna, og svo aftur viku í ágúst. Núna stefnum við að því að klára grunnanna að lögunum ellefu sem við þurfum að taka upp fyrir plötuna (við höfum tekið upp tvö lög áður og lögin verða því þrettán í allt). Í ágúst munum við svo taka upp "over-dub", þ.e. fullt af aukahljóðfærum, söng, röddum og rugli. BEB


Sprengjó

Hvernig væri að kalla eina af þessum 138 biðstöðvum Sprengjó?

mbl.is Fyrsta strætóstöðin nefnd „Verzló"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýking

Georg er kominn með sýkingu í einn puttann og hefur áhyggur af því að geta ekki plokkað bassann almennilega í upptökunum. Við sögðum honum að hafa engar áhyggjur. Að vísu lítur sárið út eins og þriggja mánaða gamall ostur og svo virðist hafa myndast rauðleitur taumur frá nöglinni og upp í olnboga á stráknum. Hann gæti þurft að detta inn á bráðamóttöku fljótlega, en við skulum bara sjá til. Menn hafa harkað af sér minna. Auk þess höfum við meiri trú á góðum húsráðum heldur en nútíma læknavísindum hérna í Sprengjuhöllinni. Hver þarf rándýr lyf sem heita “suphaclomexidarin” þegar maður hefur salt? Annars er þetta er mjög vel gert hjá Gogga. Við erum ekki búnir að taka upp einn tón af plötunni og hann er búinn að breyta upptökuverinu í holdsveikrarspítala. Það er farið að solla í sárinu og hljóðið minnir á graftarkraumið í Ólafi helga Haraldssyni Noregskonungi í Stiklastaðabardaga…og talandi um Noreg.

Þó við séum staddir í Reykjavík þá líður okkur eins við höfum farið til Noregs. Allt hérna í kring minnir á Noreg. Jafnvel Sprengjuhallarmeðlimir sem hafa aldrei komið til Noregs stynja “Noregur” þegar þeir líta út um gluggann hérna. Hér eru trén gróskumikil og græn, húsin með háum burstum og bílarnir ökólógískir. Þessi Noregsstemning mun kannski leka inn á plötuna. Við erum ekki alveg vissir hvort það sé gott eða ekki. Norðmenn eru að vísu frægir fyrir að gera góða popptónlist, en sú tónlist er einhvernveginn ekkert sérstaklega “norsk”. Fyrsti gæinn til að vinna World Idol var til dæmis norskur. Feiti ljóshærði pípulagningamaðurinn sem var með svo stórt frekjuskarð að það var hægt að troða fimmtíuköllum í það. Gæinn minnti á sjálfsala. Hann vinnur örugglega við eitthvað slíkt í dag. Hann er svo mikið “has-been” að leyfir fólki að stinga fimmtíuköllum upp í sig á einhverju torgi í Þrándheimi og tekur lag í staðinn. Það man ekki einu sinni neinn hvernig lagið hans hljómaði.

Og hvað er eiginlega með þetta World Idol? Er það ennþá í gangi? Ef að allt væri með felldu þá væri það vinsælasta sjónvarpsefni í heiminum. Milljón sinnum stærra en Eurovision. Eurovision fer aldrei framhjá manni. Maður fer alltaf inn í eldhús og býr til popp þegar það er Eurovision. En þetta World Idol er eitthvað misheppnað. Það er bara eitthvað flopp. Og hver nennir að ná í popp fyrir flopp? Úff.

Annars gengur þetta mjög hratt og örugglega hjá okkur. Við erum búnir að vera einn dag hérna hjá Valgeiri og platan er næstum tilbúin. Djók. Við erum ennþá að ákveða hvaða gítara við ætlum að nota o.þ.h. Ætlum að gera þetta mjög almennilega. Í dag gildir ákveðin regla. Ef þú ætlar að láta eitthvað hljóma mjög lélegt þá verður þú samt að eyða nokkrum vikum í að gera það vel og svo nokkrum vikum í að gera það aftur lélegt. Þá fyrst er eitthvað almennilega lélegt. Ef við viljum lélegt þá viljum við þannig lélegt. En við viljum reyndar ekkert lélegt heldur gott. Góða plötu. Hún verður gó’ [svo]. Meira síðar.
BEB


Dagur 1

Okkur fannst eiginlega alveg nauðsynlegt að skrásetja upptökuferlið eins og hægt var. Hér munum við semsagt setja niður fréttir úr upptökuferlinu, henda inn myndum, grínast, prakkarast, og almennt búa til minningar handa okkur og hinum sem áhuga hafa.

Sprengjuhöllin er komin í stúdíó. Við erum í Gróðurhúsi Valgeirs Sigurðssonar í Breiðholtinu ásamt her aðstoðarmanna. Til stendur að útbúa listrænt stórvirki til útgáfu í haust. Sem stendur er verið að stilla upp græjum og hljóðnemum, stinga snúrum hingað og þangað, snúa segulbandi, hamra á lyklaborð, margt skrafað, og við erum að hlusta á nokkur af uppáhaldslögunum okkar til að komast í gírinn. Myndavélin er víðs fjarri en við lofum henni á morgun. Í bili verður laptop-augað að nægja: 

Í upphafi


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband