Færsluflokkur: Tónlist
31.8.2007 | 10:42
Nýtt lag í spilun + áminning um hlustunartónleika
Eins og fram hefur komið er fyrsta plata Sprengjuhallarinnar tilbúin úr hljóðverinu, þó enn sé rúmur mánuður í útgáfu. Af því tilefni hefur nýtt lag verið sett í spilun og heitir það Glúmur. Í dag og gær voru Sprengjuhallarmeðlimir duglegir við að kynna lagið á útvarpsstöðvum landsins. Tekið var stutt spjall á Rás 2, Bylgjunni, X-inu, FM og Reykjavík FM. Spurning hvort við þyrftum samt ekki að drífa okkur á Útvarp Sögu og Létt-Bylgjuna. Vonandi verða þessar stöðvar sér samt út um lagið þó við höfum ekki heimsótt þær. Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að Glúmi verði vel tekið enda léttleikandi lag í stórgóðri útsetningu með fróðlegum texta. Áfram Glúmur.
Í gær kom Sprengjó fram á tónleikum í Hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð til styrktar för Hamrahlíðarkórsins til Kína. Það voru aðeins fyrrverandi "MH-hljómsveitir" sem stigu á stokk og þarna komu fram ásamt Sprengjuhöllinni Stuðmenn, Baggalútur, djasshljómsveitin Barpar, Hjaltalín og Páll Óskar. Það var smekkfullt út úr dyrum og stemningin alveg einstaklega góð. Sprengjuhöllin þakkar kærlega fyrir sig og telur sig heiðurs aðnjótandi að hafa fengið að spila á þessum tónleikum.
Að lokum er rétt að minna á hlustunartónleika Sprengjuhallarinnar annað kvöld (laugardag). Þeir fara fram á tónleikastaðnum Organ og byrja upp úr kl. 20. Þá verður nýja Sprengjuhallarplatan leikin í gegn tvisvar, svo mun austurbæjarhljómsveitin Retro Stefson stíga á svið, því næst mun Sprengjuhöllin leika lög af plötu sinni og að lokum mun DJ Alenheimer trylla fólk lengst fram eftir nóttu með skífuþeytingum. Miðaverð er 1000 krónur og hægt er að kaupa miða í forsölu á midi.is og þegar hafa fjölmargir miða selst. Gera má þó ráð fyrir að einnig verði hægt að kaupa miða við innanginn. Þá þykir okkur miður að þurfa að tilkynna að það fylgir ekki frír bjór með miðanum, eins og áður var haldið fram. Ekki náðust samningar við bjórinnflytjendur eins og vonir stóðu til. Gangi okkur betur næst.
Endilega mætið á Organ og fagnið nýrri plötu með okkur lengst fram á nótt. Við lofum ykkur geysigóðu stuði. Sjálfir verðum við á Organ allan laugardaginn að æfa okkur og til að ná fram góðum hljóm í húsið. Við munum sýna metnað. Vonandi sjáumst við. Kveðja, Sprengjuhöllin.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.8.2007 | 16:21
Ný plata - Tónleikar laugardagskvöldið 1. september
Í tilefni þess að nýja platan okkar er tilbúin (ókei hún verður það næsta laugardag þegar búið verður að mastera hana) efnum við til tónleika þarnæsta laugardag, 1. september kl. 20. Hlustað verður á hina nýja plötu tvisvar sinnum og svo mun Sprengjuhöllin leika lögin á plötunni fyrir gesti. Einnig mun gestahljómsveit spila fyrir gesti en það á eftir að ákveða hverjir verða fengnir til verksins.
Líklegast verða það Miesel F eða Johnathan Nathan John, bandarískir trúbadorar sem við kynntumst í Stafangri fyrir stuttu.
"En eru þetta útgáfutónleikar?"
Nei. Þeir verða seinna þegar umslagið og allt draslið verður tilbúið í október. Þetta eru hlustunartónleikar. Sumum kann að þykja það harla lítil ástæða til að halda tónleika.
"Hvers vegna ætti ég að borga 1000 kall til að fara á tónleika til að hlusta á plötu sem er ekki kominn út og ég verð að kaupa seinna á 2000 kall?"
1) Það fylgir frír bjór með miðanum þannig að þetta kostar í rauninni bara 400 kall (Jóndi umboðsmaður ætlaði allavega að reyna að redda einhverju bjórsponsi þannig að þetta er eiginlega alveg pottþétt)
2) Þetta eru tónleikar með tveimur hljómsveitum og hljóðmanni og fullt af fólki sem vinnur að skipulagningu sem þarf að fá eitthvað pínulítið greitt. Líta má á hlustunina á plötunni sem einskonar bónus við það.
3) Ef þið viljið hafa einhver áhrif á gerð plötunnar þá er þetta ykkar tækifæri. Til dæmis. "Hei, afhverju er ekki Svona fer fyrir stelpunum á plötunni???" Ekkert mál. Við förum þá bara í hljóðverið og tökum það upp og setjum á plötuna. Þetta er svona lýðræðisdæmi hjá okkur. Að vísu getum við ekki breytt plötunni neitt eftir að hún er masteruð en þetta virkar pínulítið eins og þetta gæti verið svona og þess vegna set ég þetta sem númer 3.
4) Útaf því að 1) og 2) eru frekar góðar ástæður, eiginlega mjög góðar.
Organ er lítill staður og það er takmarkað mikið af miðum í boði. Eiginlega alveg mjög fáir þannig að drífið ykkur að kaupa miða á þetta sjaldgæfa fyrirbæri: hlustunartónleika Sprengjuhallarinnar.
Tónlist | Breytt 24.8.2007 kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2007 | 12:45
Að raða á plötu
Það gekk svo vel að taka upp akústísk hljóðfæri og lagfæringar í gær að við erum byrjaðir að hljóðblanda. Eitt lag - Flogin er finka - er meiraðsegja alveg tilbúið.
Upptökum er þó ekki alveg lokið, enn á eftir að taka upp klarínettu í eitt lag og bakraddir í þrjú eða fjögur. Sem stendur er þó verið að hljóðblanda lagið Taktlaus (sem einhverjir þekkja kannski undir eldra heiti sem Can't Dance). Miðað við þennan gang stefnir allt í að platan verði alveg tilbúin í lok mánaðarins og hún ætti því að komast glóðvolg í hendur ykkar í október.
Ég (Atli) er algjör perri þegar kemur að því að raða lögum á plötu og hef verið að missa svefn yfir því undanfarnar tólf vikur eða þarumbil. Áður en við byrjuðum að taka upp var ég nokkurn veginn búinn að setja þetta niður fyrir mér en eftir að hafa hlustað á grófar útgáfur af lögunum aftur og aftur í þeirri röð hef ég gert umtalsverðar lagfæringar og ég held að þetta muni smella á næstu dögum.
Mig langar til að ramma plötuna inn með tveimur frekar rólegum lögum, Frá gleymdu vori og fyrrnefndu Flogin er finka. Bæði lögin skipa árstíðunum í öndvegi og þar sem árstíðirnar eru líka áberandi í mörgum öðrum textum (Keyrum yfir Ísland, Verum í sambandi, Hamingja, ...) finnst mér þetta skemmtileg leið til að undirstrika hreyfinguna sem verður í tíma meðan plötunni vindur áfram, þótt hún sé ekki línuleg. Lögin tvö eru líka það áberandi rólegasta á plötunni og ég held að það sé alltaf gott að byrja af yfirvegun á hlutunum.
Plötur eiga að segja sögu. Þær eru einsog stórsaga utan um margar smærri sögur sem eru lögin sjálf. Það þýðir ekki að þær eigi að vera proggaðar konsept-plötur og raunar leggjum við nokkuð upp úr því að þessi fyrsta plata okkar sé fyrst og síðast safn laga. En til að safn laga virki sem heild þarf að vera einhverskonar bygging - það þarf að vera ris, fjöll og dalir, án þess að platan verði einsog normalkúrva í laginu - hér gildir að láta fjölbreytnina ráða. Þá þurfa skil milli hraða og stemmningar að vera falleg án þess að vera fyrirsjáanleg. Það er því að ýmsu að huga, en ég held að það sem við erum búnir að leggja niður verði algjört dúndur og muni koma aðdáendum okkar og öðrum skemmtilega á óvart.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.8.2007 | 17:04
Útsetningar, Hjaltalín, hljóðblöndun og grafísk hönnun
Þá erum við komnir aftur í stúdíóið. Í dag höfum við tekið upp strengi í nokkur lög og hyggjumst einnig taka upp blástur. Útsetningar hafa mikið til verið í höndum Högna Egilssonar söngvara og gítarleikara í hljómsveitinni Hjaltalín, en auk þess hafa fleiri meðlimir þeirrar góðu sveitar leikið inn á plötuna. Við erum mjög þakklát Hjaltalín fyrir þeirra aðstoð og lítum á þá sem mikla vinahljómsveit okkar. Það hefur líka komið fyrir að Sprengjuhöllin og Hjaltalín séu bornar saman sem hljómsveitir. Að vísu er um nokkuð ólíkar hljómsveitir að ræða. Hjaltalín krakkarnir eru fágaðri spilarar og algerir útsetningamógúlar. Segja má að lögin þeirra séu öll einhverskonar tónverk fremur en hefðbundin sönglög. Sprengjuhöllin er hinsvegar meira í viðlagapoppsbransanum, meira outgoing og einfaldari. Það er samt ákveðið intelligence sem hljómsveitirnar eiga sameiginlegt. Eitthvað nobody's fool element sem ekki verður hönd fest á. Það verður svo sem ekkert frekar reynt hér.
##
Þegar búið verður að taka upp leik sessjónistanna þurfum við hljómsveitarmeðlimir að laga nokkra hluti. Einhver gítar verður tekinn aftur, bassi og trommur á stöku stað. Þá verður einnig einhver söngur lagfærður. Undanfarnar vikur höfum við hlustað gaumgæfilega á plötuna og fundið út hvað betur megi fara. Í dag og á morgun höfum við tækifæri til að lagfæra þessa hluti. Í lok vikunnar förum við svo hinsvegar í hljóðblöndun. Þó að margir álíti hljóðblöndun fyrst og fremst tæknilegt ferli þá er það alls ekki svo. Hljóðblöndun er þvert á móti mjög kreatív vinna sem skiptir sköpum fyrir hljóm plötunnar. Við ætlum okkur svo sem ekki neina landvinninga í hljóðblöndun, en það skiptir miklu máli hvernig þetta er gert. Bæði þarf að finna ákveðna stefnu varðandi hljóminn, þ.e. hversu hátt við viljum að heyrist í trommum versus bassa og þ.h. og svo þarf einnig að finna hljóm hvers lags. Við erum frekar conventional í þessu og viljum að það heyrist lítillega í öllum hljóðfærum. Við teljum þó mikilvægt að söngurinn sé meira heldur en bara hvert annað hljóðfæri, enda verður að heyrast í textanum. Margar rokkhljómsveitir gera þetta ekki svona. Þær líta fremur á sönginn sem hljóm sem blandast skuli eðlilega inn í heildarhljóminn, þá er hinsvegar hætt við að orðin í textunum hverfi inn í leðjuna.
##
Í gær hittum við tvo menn sem munu skapa plötuumslagið með okkur. Þeir eru Leó ljósmyndari og Jói grafískur hönnuður. Það er talsvert verk að búa til plötuumslög og það er margt sem þarf að huga að. Fyrst þarf að mynda einhverskonar heildarhugmynd sem mun endurspeglast bæði á kápunni og inni í bæklingnum. Þá þarf að ákveða hvernig umslag eigi að nota. Valkostirnir eru digipak eða jewelcase. Hið fyrrnefnda eru harðpappírsumslög með plastbakka að innan (meira indí, en samt afar algengt í dag) en hið síðarnefnda er töff nafn yfir klassískt geisladiskahulstur úr plasti. Við veljum örugglega digipak því það býður upp á meiri hönnun, meiri grafík og meira af drasli til að opna. Við erum mjög hrifnir af svoleiðis.
Í næstu færslu munum við ræða nafn á plötunni. Það eru komnar nokkuð margar hugmyndir og kannski væri ekki vitlaust að leyfa lesendum bloggsins að koma með fleiri tillögur. Fylgist með.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2007 | 16:13
Kaupið í Sprengjuhöllinni - hún á bara eftir að hækka
Ekki stressa ykkur þó að Straumur-Fokkjúás, Exista og Forøya bank hafi lækkað niðrúr öllu valdi í dag. Seljið bréfin og kaupið ykkur bréf í Sprengjuhöllinni. Þar er allt á uppleið. Núna á eftir munu meðlmir skrifa undir útgáfusamning við Senu, sem er stærsti tónlistarútgefandi á landinu, og í haust og vetur munu hverjir stórtónleikarnir reka annan.
Sprengjuhöllin mun margborga sig sem fjárfesting. Hoppið upp í lestina áður en hún er komin á fulla ferð. Nú er tíminn.
En hvernig kaupir maður hlut í Sprengjuhöllinni? Þið getið keypt miða á tónleika, keypt plötuna okkar, boli og annað drasl. Þetta verður priceless eftir nokkur ár. Hver væri svo sem ekki til í að eiga eintakið af fyrstu útgáfu af Love me Do með Bítlunum, í dag. Þetta drasl kostar milljónir. Meira að segja barnaplatan hennar Bjarkar "Björk" frá 1977 fer á hundruð þúsunda í fyrstu útgáfu í dag. Satt.
Gleymið Exista-drullunni. Kaupið í Sprengjuhöllinni. Hún hækkar!
Mikil lækkun hlutabréfa í Kauphöll Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.8.2007 | 10:40
Verslunarmannahelgin
Nú er Mogginn víst búinn að koma fyrir krónískum link á þetta blogg á forsíðu mbl.is þannig að maður neyðist víst til að henda inn nýrri færslu til að standa undir trausti. Það verður að teljast mikið traust að vera ávallt á forsíðu mbl.is, mest lesnu síðu landsins, og þess vegna eykst pressan sífellt á okkur um að vera fyndnir og sniðugir. Þið þurfið samt ekki að hafa neinar áhyggjur. Það hefur svo margt sniðugt gerst hjá okkur undanfarna daga að það er eiginlega ekki hægt að segja frá því á leiðinlegan hátt.
Á föstudaginn flugum við til Akureyrar því þar áttum við að spila um kvöldið á Ráðhústorginu á tónleikum sem voru liður í hátíðinni "Ein með öllu". Gæinn sem sótti okkur á flugvöllinn sagði að gistiheimilið sem við gistum á væri "eina mínútu frá sviðinu og eina mínútu frá Ríkinu" þannig að við þurftum svo sem ekki að ferðast mikið um bæinn. Akureyrarhátíðin virtist fara ágætlega fram. Á tónleikum okkar um kvöldið, sem stóðu frá 23 til 23.30 var mikið af fólki, allt frá miðaldra hestabóndum í flíspeysum yfir í fulla unglinga með glow-sticks. Já. Það var fullt af ölvuðum unglingum þarna eins og góðum verslunarmannahelgarhátíðum sæmir. Það virðist litlu hafa skipt þó að tjaldsvæði bæjarins væru lokuð fólki yngra en 23 ára. Þessir unglingar voru annaðhvort allir frá Akureyri eða þeir redduðu sér gistingu öðruvísi. Þá skal það fært skilmerkilega til bókar að þessir fullu unglingar voru stórskemmtilegir og dönsuðu og hoppuðu í takt við tónlist okkar. Við vorum mjög ánægðir með þessa unglinga.
Þó það sé politically incorrect þá verður maður að taka undir með Hrafni Gunnlaugssyni sem segir að ætli maður sér einhverntíman að vera ofdrykkjumaður á ævinni þá sé best að vera það sem unglingur.
Við flugum svo til Vestmanneyja daginn eftir. Sökum lítils svefns og almenns slappleika vorum við ekkert sérstaklega stemmdir þegar við lentum. Strax eftir lendingu fórum við í kjötsúpuveislu í bænum þar sem við horfðum á mjög stemmda rauðbirkna einstaklinga spila Mustang Sally á píanó og henda fram one-lænurum. Sumir okkar fengu hreinlega menningarsjokk við að fylgjast með þessu. Hver einasti maður í þessari veislu var í þvílíku rok-stuði að við hrökkluðumst hreinlega í burtu. Að vísu var sveitamaðurinn Georg að fíla sig mjög vel og vildi vera áfram. Georg er einn af þessum mönnum sem finnst alveg ókei að öskra sig hásan með kollviks-glansandi Re-Max týpum í stuði. Það er mun meira fordómaleysi í slíkri hegðun heldur en að skrá sig endalaust í einhverja aktivista-hópa sem ætla að bjarga Austur-Tímor.
Eftir ósigurinn í kjötsúpupartíinu tókum við okkur saman í andlitinu og grínuðum okkur upp í gott stuð. Við fórum í eitthvað Tuborg partí sem haldið var í stórri hlöðu fyrir utan bæinn og náðum að æsa okkur vel upp. Að lokum höfðum við komið upp sérstökum grín-skildi en hann virkaði þannig að við ferðuðumst saman í hóp og pössuðum að vera alltaf á undan gagnaðilum okkar til að koma með djók. Auk þess studdum við mjög hvern annan í gríninu og pössuðum að hlegið yrði að öllum bröndurum sem settir voru fram innan úr hópnum. Við munum kannski sækja um einkaleyfi á svona grínskildi.
Tónleikar okkar voru á milli 12 og 1 um nóttina, strax að lokinni flugeldasýningunni. Baksviðs var mikið stemning. Þar voru saman komnir ýmsir rokkarar, ýmist á leiðinni í eða nýkomnir úr meðferð, og greinilegt að sumir voru reyndari í backstage-töktum en aðrir. Við vorum búnir að koma okkur fyrir á sviðinu þegar síðustu flugeldarnir sprungu út og gátum því byrjað sjóið um leið og síðasti hvellurinn heyrðist. Okkur fannst táknrænt að Sprengjuhöllin kæmi strax á eftir sprengjunum. Við byrjuðum á laginu "Hiti" sem tókst mjög vel upp. Sextíu-og-sex-gráður norður klæddu glapmennin í dalnum hoppuðu og skoppuðu með bakpokana sína dinglandi. Svo rak hvert lagið annað. Við og við barst ýmislegt drasl upp á svið. Full Magic-dós (hefði getað verið hættulegt), neftóbaksdolla sem fór næstum í hausinn á mér (gæinn ætlaði greinilega að gefa mér í nefið= sætt) og lopapeysa. Ég tel þetta þó ekki bera vott um vanvirðingu heldur þvert á móti held ég að þetta hafi verið leið fjöldans til að tjá hrifningu sína. Þetta er svipað og þegar maður er svo fullur að maður hrindir einhverjum til að láta hann vita hversu mikið manni líkar við hann. Það er til dæmis þekkt viðreynsluaðferð í Finnlandi að kýla stelpur til að tjá ást sína á þeim.
Við enduðum showið á laginu "Verum í sambandi" sem fékk Dalinn til að nötra af stemningu. Maður sá appelsínugulklædda glow-sticks skreytta unglingakroppa færast nær hverjum öðrum á meðan allir tóku undir með textanum..."þétt mér við hlið..." Þetta var vel heppnað sett. Að vísu kom sviðsstjórinn upp að Snorra í miðju prógrammi og sagði að við þyrftum "að slaka aðeins á Árna Johnsen-djókinu" en við gengum þó ekki of langt og fengum við það staðfest af sviðsstjóranum eftir tónleikana. Dæmi annars hver fyrir sig. Í upphafi lagsins "Tímarnir okkar" var þessum setningum meðal annars fleygt fram:
Halló, eru ekki allir í ógeðslega miklu stuði í Dalnum?
Við erum að vísu nokkrum árum of seinir og búnir að missa af hvalnum
Keikó! Hann hataði ekki að runka sér á dekki
Ekki frekar en Árni Johnsen að kýla tónlistarmenn í smettið
En það borgar sig víst kannski að segja ekki of mikið
Því annars fáum við kannski nokkra "go' morron'" fyrir vikið
Ég meina Rottweiler og Páll Óskar og Hreimur feng'að kenn'á'ðí
Og ég er ekki frá því að þetta dæmi sé allt spennandi
Hættum allri fýlu nú, því það er þjóðhátíð
Við þurfum ekki að heilsa hvert öðru að sjómannasið
Þegar tónleikunum var lokið var nóttin ung og mikið átti eftir að gerast þó að ekki verði mikið tæpt á því hér. Undir morgun stormuðum við hvítu tjöldin og tókum lagið á gítarinn, keyptum okkur óætar pylsur á 500 kall stykkið, fukum utan í tjöld, öskruðum á fólk og gerðum allt þetta basic klassíska þjóðhátíðardót. Við vorum mjög ánægðir með ferðina og þökkum fyrir. Maður á víst alltaf að segja takk.
Framundan hjá okkur er svo frekari upptökur sem hefjast í næstu viku. Tónleikar fimmtudaginn 16. ágúst á NASA og svo tvennir tónleikar á menningarnótt 18. ágúst.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.7.2007 | 22:54
Búnir í bili
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2007 | 14:17
Sprengjó á Miklatúni
Ha? Munum við spila á Rásar tvö tónleikum á Miklatúni á Menningarnótt? Það hefur enginn, ENGINN, minnst á það við okkur!
Djók. Við hlökkum til að spila á Miklatúni (já þetta heitir Miklatún en ekki Klambratún krúttdúllurnar ykkar). Við lofum miklu fjöri, gríni og grilli (ætlum að grilla pylsur handa 15 þúsund manns á sviðinu).
Þetta verða frábærir tónleikar og við vonumst til að sjá sem flesta. Við munum horfa yfir áhorfendaskarann og fylgjast með hvort þú sért ekki örugglega þar, hver sem þú ert...passaðu þig bara...við fylgjumst með þér.
Miklatún á Menningarnótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.7.2007 | 12:17
Dagur 5. Maður með gleuraugu kýldur.
Núna erum við löngu búnir með grunnana að öllum lögunum og erum því aðallega að fást við tvennt. Annarsvegar hundleiðinlegt fiff, auto-tune, filter-vax bullshit sem gerist allt í tölvunni og hinsvegar allskonar skemmtilegt grín. Mér finnst grínið skemmtilegra. Atla finnst bæði skemmtilegt. Í gær unnum við mikið í laginu "Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins". Við vorum búnir að ákveða að taka upp hljóðið í lyklum að detta og gerðum það. "Lyklar að detta" hljóma hinsvegar ekki eins og "lyklar að detta" þegar það er tekið upp heldur eins "maður með gleraugu kýldur" . Þetta er alveg satt. Við settum þetta hljóð inn í lagið og fyrir vikið varð lagið ógeðslega aggressívt. Hvað er aggressívara en að kýla mann með gleraugu? Það er svo svakalegt. Fyrst heyrist "hviss" þegar hnefinn svífur í gegnum loftið. Svo "þömp" þegar hann lendir á gleraugunum og andlitinu og svo stutt "krsjs" þegar gleraugun brotna inn í andlitið. Þetta er einum of svakalegt og eitthvað svo mjög rangt. Allavega. Við erum með svona hljóð í byrjun á laginu "Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins". Svo færðum við okkur upp á skaftið og stilltum upp mækum hérna úti í porti og brutum flöskur og tókum hljóðið upp. Við notuðum sjúskaðar Budweiser Budwar flöskur (alveg eins og þeir eru með á Sirkus). Hljóðin sem komu voru algert konfekt og við notum þau mikið í laginu. Auk þess notum við urr úr kettinum mínum og ýmislegt annað gúmmelaði. Þetta verður alger barbecue-sósa komma bomberebomberebom!
Það fyndnasta í þessu öllu er samt að okkur hefur ekki ennþá tekist að koma bræðrunum Míó og Valgeiri á óvart með neinu sem við höfum stungið upp á. Þetta eru gæjar sem hafa prófað allt þegar kemur að sánd og flipp málum í hljóðveri. Úlala. I mean it! Þegar ég sagðist ætla að taka upp kött sagði Valgeir bara "Er það Síams?" Það var það eina sem hann sagði. Hversu vant er það? Ha! BEB
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2007 | 11:19
Myndir
Við lofuðum myndum og við stöndum við loforð okkar. Hér koma nokkrar. Fleiri myndir má sjá á glærusýningu. Smellið hér.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)