25.7.2007 | 15:34
Georg fór úr lið
Mér er mikið niðri fyrir þegar ég skrifa þessa færslu. Ég verð því miður að tilkynna ykkur að Georg, bassaleikarinn okkar, snéri sig mjög alvarlega úr lið rétt áðan. Hann var að spila mjög snúna bassalínu í laginu "Keyrum yfir Ísland" þegar við heyrðum hátt og einkennilegt brak og svo mjög hátt Mikka Mús öskur. Við vitum ekki ennþá hvað gerðist, en líklega snérist liðþófi í olnboga yfir framhandleggsbeinið með greindum afleiðingum. Við sendum Gogga beint í kalda sturtu og við heyrum ennþá öskrin koma frá baðherberginu. Við vitum samt ekki hvort öskrin séu vegna tognunarinnar eða vegna kalda vatnsins í sturtunni, en það er líklega nálægt frostmarki. Auk þess settum við klaka í sturtubotninn. Sem er kannski frekar vanhugsað þar sem maðurinn er ekkert skaddaður á iljunum. Jæja.
Þá er það spurning hvort við frestum sessjóninu eða fáum nýjan bassaleikara. Við erum samt ennþá að gera okkur vonir um að Gogga muni batna. Hann sagði allavega við okkur að hann gæti örugglega kippt olnboganum aftur í lið því hann hefði séð Mel Gibson kippa öxl í lið í Lethal Weapon II og þetta ætti að vera mun auðveldara. Auk þess erum við komnir með mjög færan bæklunarlækni á línuna og hann er líklega að fara að bruna uppeftir til okkar á eftir með tösku fulla af lyfjum og gúmmilaði. Sjáum hvað verður. BEB
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.