9.8.2007 | 10:40
Verslunarmannahelgin
Nú er Mogginn víst búinn að koma fyrir krónískum link á þetta blogg á forsíðu mbl.is þannig að maður neyðist víst til að henda inn nýrri færslu til að standa undir trausti. Það verður að teljast mikið traust að vera ávallt á forsíðu mbl.is, mest lesnu síðu landsins, og þess vegna eykst pressan sífellt á okkur um að vera fyndnir og sniðugir. Þið þurfið samt ekki að hafa neinar áhyggjur. Það hefur svo margt sniðugt gerst hjá okkur undanfarna daga að það er eiginlega ekki hægt að segja frá því á leiðinlegan hátt.
Á föstudaginn flugum við til Akureyrar því þar áttum við að spila um kvöldið á Ráðhústorginu á tónleikum sem voru liður í hátíðinni "Ein með öllu". Gæinn sem sótti okkur á flugvöllinn sagði að gistiheimilið sem við gistum á væri "eina mínútu frá sviðinu og eina mínútu frá Ríkinu" þannig að við þurftum svo sem ekki að ferðast mikið um bæinn. Akureyrarhátíðin virtist fara ágætlega fram. Á tónleikum okkar um kvöldið, sem stóðu frá 23 til 23.30 var mikið af fólki, allt frá miðaldra hestabóndum í flíspeysum yfir í fulla unglinga með glow-sticks. Já. Það var fullt af ölvuðum unglingum þarna eins og góðum verslunarmannahelgarhátíðum sæmir. Það virðist litlu hafa skipt þó að tjaldsvæði bæjarins væru lokuð fólki yngra en 23 ára. Þessir unglingar voru annaðhvort allir frá Akureyri eða þeir redduðu sér gistingu öðruvísi. Þá skal það fært skilmerkilega til bókar að þessir fullu unglingar voru stórskemmtilegir og dönsuðu og hoppuðu í takt við tónlist okkar. Við vorum mjög ánægðir með þessa unglinga.
Þó það sé politically incorrect þá verður maður að taka undir með Hrafni Gunnlaugssyni sem segir að ætli maður sér einhverntíman að vera ofdrykkjumaður á ævinni þá sé best að vera það sem unglingur.
Við flugum svo til Vestmanneyja daginn eftir. Sökum lítils svefns og almenns slappleika vorum við ekkert sérstaklega stemmdir þegar við lentum. Strax eftir lendingu fórum við í kjötsúpuveislu í bænum þar sem við horfðum á mjög stemmda rauðbirkna einstaklinga spila Mustang Sally á píanó og henda fram one-lænurum. Sumir okkar fengu hreinlega menningarsjokk við að fylgjast með þessu. Hver einasti maður í þessari veislu var í þvílíku rok-stuði að við hrökkluðumst hreinlega í burtu. Að vísu var sveitamaðurinn Georg að fíla sig mjög vel og vildi vera áfram. Georg er einn af þessum mönnum sem finnst alveg ókei að öskra sig hásan með kollviks-glansandi Re-Max týpum í stuði. Það er mun meira fordómaleysi í slíkri hegðun heldur en að skrá sig endalaust í einhverja aktivista-hópa sem ætla að bjarga Austur-Tímor.
Eftir ósigurinn í kjötsúpupartíinu tókum við okkur saman í andlitinu og grínuðum okkur upp í gott stuð. Við fórum í eitthvað Tuborg partí sem haldið var í stórri hlöðu fyrir utan bæinn og náðum að æsa okkur vel upp. Að lokum höfðum við komið upp sérstökum grín-skildi en hann virkaði þannig að við ferðuðumst saman í hóp og pössuðum að vera alltaf á undan gagnaðilum okkar til að koma með djók. Auk þess studdum við mjög hvern annan í gríninu og pössuðum að hlegið yrði að öllum bröndurum sem settir voru fram innan úr hópnum. Við munum kannski sækja um einkaleyfi á svona grínskildi.
Tónleikar okkar voru á milli 12 og 1 um nóttina, strax að lokinni flugeldasýningunni. Baksviðs var mikið stemning. Þar voru saman komnir ýmsir rokkarar, ýmist á leiðinni í eða nýkomnir úr meðferð, og greinilegt að sumir voru reyndari í backstage-töktum en aðrir. Við vorum búnir að koma okkur fyrir á sviðinu þegar síðustu flugeldarnir sprungu út og gátum því byrjað sjóið um leið og síðasti hvellurinn heyrðist. Okkur fannst táknrænt að Sprengjuhöllin kæmi strax á eftir sprengjunum. Við byrjuðum á laginu "Hiti" sem tókst mjög vel upp. Sextíu-og-sex-gráður norður klæddu glapmennin í dalnum hoppuðu og skoppuðu með bakpokana sína dinglandi. Svo rak hvert lagið annað. Við og við barst ýmislegt drasl upp á svið. Full Magic-dós (hefði getað verið hættulegt), neftóbaksdolla sem fór næstum í hausinn á mér (gæinn ætlaði greinilega að gefa mér í nefið= sætt) og lopapeysa. Ég tel þetta þó ekki bera vott um vanvirðingu heldur þvert á móti held ég að þetta hafi verið leið fjöldans til að tjá hrifningu sína. Þetta er svipað og þegar maður er svo fullur að maður hrindir einhverjum til að láta hann vita hversu mikið manni líkar við hann. Það er til dæmis þekkt viðreynsluaðferð í Finnlandi að kýla stelpur til að tjá ást sína á þeim.
Við enduðum showið á laginu "Verum í sambandi" sem fékk Dalinn til að nötra af stemningu. Maður sá appelsínugulklædda glow-sticks skreytta unglingakroppa færast nær hverjum öðrum á meðan allir tóku undir með textanum..."þétt mér við hlið..." Þetta var vel heppnað sett. Að vísu kom sviðsstjórinn upp að Snorra í miðju prógrammi og sagði að við þyrftum "að slaka aðeins á Árna Johnsen-djókinu" en við gengum þó ekki of langt og fengum við það staðfest af sviðsstjóranum eftir tónleikana. Dæmi annars hver fyrir sig. Í upphafi lagsins "Tímarnir okkar" var þessum setningum meðal annars fleygt fram:
Halló, eru ekki allir í ógeðslega miklu stuði í Dalnum?
Við erum að vísu nokkrum árum of seinir og búnir að missa af hvalnum
Keikó! Hann hataði ekki að runka sér á dekki
Ekki frekar en Árni Johnsen að kýla tónlistarmenn í smettið
En það borgar sig víst kannski að segja ekki of mikið
Því annars fáum við kannski nokkra "go' morron'" fyrir vikið
Ég meina Rottweiler og Páll Óskar og Hreimur feng'að kenn'á'ðí
Og ég er ekki frá því að þetta dæmi sé allt spennandi
Hættum allri fýlu nú, því það er þjóðhátíð
Við þurfum ekki að heilsa hvert öðru að sjómannasið
Þegar tónleikunum var lokið var nóttin ung og mikið átti eftir að gerast þó að ekki verði mikið tæpt á því hér. Undir morgun stormuðum við hvítu tjöldin og tókum lagið á gítarinn, keyptum okkur óætar pylsur á 500 kall stykkið, fukum utan í tjöld, öskruðum á fólk og gerðum allt þetta basic klassíska þjóðhátíðardót. Við vorum mjög ánægðir með ferðina og þökkum fyrir. Maður á víst alltaf að segja takk.
Framundan hjá okkur er svo frekari upptökur sem hefjast í næstu viku. Tónleikar fimmtudaginn 16. ágúst á NASA og svo tvennir tónleikar á menningarnótt 18. ágúst.
Athugasemdir
Þið vooooruuuuuð fokkinng geðveikir!!!!! Sjúkir! S J Ú K I R ! vvvvvvváaaáa ég hélt ég myndi deygja þegar þið tókuð þanna óli og svenni!
AnnaS (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 14:22
Þið hafið verið djakkaðir, pulsan kosaði 300 kalll
Eyjafari (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 11:55
Þið eigið langt í land með að verða alvöru konsertband, kannski var það ölvun sem var að hrekkja ykkur þetta kvöld, en þið áttuð ekkert erindi á brekkusviðið í Eyjum þett kvöld, og hvað þá eftir flugeldasýningu. En þið kannski sjóist með árunum.
Jólsveinn (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.