15.8.2007 | 17:04
Útsetningar, Hjaltalín, hljóðblöndun og grafísk hönnun
Þá erum við komnir aftur í stúdíóið. Í dag höfum við tekið upp strengi í nokkur lög og hyggjumst einnig taka upp blástur. Útsetningar hafa mikið til verið í höndum Högna Egilssonar söngvara og gítarleikara í hljómsveitinni Hjaltalín, en auk þess hafa fleiri meðlimir þeirrar góðu sveitar leikið inn á plötuna. Við erum mjög þakklát Hjaltalín fyrir þeirra aðstoð og lítum á þá sem mikla vinahljómsveit okkar. Það hefur líka komið fyrir að Sprengjuhöllin og Hjaltalín séu bornar saman sem hljómsveitir. Að vísu er um nokkuð ólíkar hljómsveitir að ræða. Hjaltalín krakkarnir eru fágaðri spilarar og algerir útsetningamógúlar. Segja má að lögin þeirra séu öll einhverskonar tónverk fremur en hefðbundin sönglög. Sprengjuhöllin er hinsvegar meira í viðlagapoppsbransanum, meira outgoing og einfaldari. Það er samt ákveðið intelligence sem hljómsveitirnar eiga sameiginlegt. Eitthvað nobody's fool element sem ekki verður hönd fest á. Það verður svo sem ekkert frekar reynt hér.
##
Þegar búið verður að taka upp leik sessjónistanna þurfum við hljómsveitarmeðlimir að laga nokkra hluti. Einhver gítar verður tekinn aftur, bassi og trommur á stöku stað. Þá verður einnig einhver söngur lagfærður. Undanfarnar vikur höfum við hlustað gaumgæfilega á plötuna og fundið út hvað betur megi fara. Í dag og á morgun höfum við tækifæri til að lagfæra þessa hluti. Í lok vikunnar förum við svo hinsvegar í hljóðblöndun. Þó að margir álíti hljóðblöndun fyrst og fremst tæknilegt ferli þá er það alls ekki svo. Hljóðblöndun er þvert á móti mjög kreatív vinna sem skiptir sköpum fyrir hljóm plötunnar. Við ætlum okkur svo sem ekki neina landvinninga í hljóðblöndun, en það skiptir miklu máli hvernig þetta er gert. Bæði þarf að finna ákveðna stefnu varðandi hljóminn, þ.e. hversu hátt við viljum að heyrist í trommum versus bassa og þ.h. og svo þarf einnig að finna hljóm hvers lags. Við erum frekar conventional í þessu og viljum að það heyrist lítillega í öllum hljóðfærum. Við teljum þó mikilvægt að söngurinn sé meira heldur en bara hvert annað hljóðfæri, enda verður að heyrast í textanum. Margar rokkhljómsveitir gera þetta ekki svona. Þær líta fremur á sönginn sem hljóm sem blandast skuli eðlilega inn í heildarhljóminn, þá er hinsvegar hætt við að orðin í textunum hverfi inn í leðjuna.
##
Í gær hittum við tvo menn sem munu skapa plötuumslagið með okkur. Þeir eru Leó ljósmyndari og Jói grafískur hönnuður. Það er talsvert verk að búa til plötuumslög og það er margt sem þarf að huga að. Fyrst þarf að mynda einhverskonar heildarhugmynd sem mun endurspeglast bæði á kápunni og inni í bæklingnum. Þá þarf að ákveða hvernig umslag eigi að nota. Valkostirnir eru digipak eða jewelcase. Hið fyrrnefnda eru harðpappírsumslög með plastbakka að innan (meira indí, en samt afar algengt í dag) en hið síðarnefnda er töff nafn yfir klassískt geisladiskahulstur úr plasti. Við veljum örugglega digipak því það býður upp á meiri hönnun, meiri grafík og meira af drasli til að opna. Við erum mjög hrifnir af svoleiðis.
Í næstu færslu munum við ræða nafn á plötunni. Það eru komnar nokkuð margar hugmyndir og kannski væri ekki vitlaust að leyfa lesendum bloggsins að koma með fleiri tillögur. Fylgist með.
Athugasemdir
Er einhver séns að platan geti heitið "Breytum öllu sem hægt er að breyta nema svönum"??
Það finnst mér allavega svalt nafn og ég myndi skíra plötu það ef ég væri að gefa út.
SMÁRI
Smári (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 00:06
Hér eru nokkrar tillögur að nöfnum frá mér:
"Hestaprófíllinn"
"Skotormur"
"Bíóferðin"
"Bras og mas"
"Sprengjur eru bara fyrir talíbana, höllin er Laugardalshöllin"
"Kommagott"
Takk fyrir mig. NAUTIÐ
Ásgeir Naut (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 09:34
Tillögur að nafni: "Heiða er mín". "Hæ hæ". "Verum í hjúfri".
Saedis Osk (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 09:35
"Sprengjuhöllin" ætti platan að heita. Eða nafnið á rólega laginu.
Maggi (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.