31.8.2007 | 10:42
Nýtt lag í spilun + áminning um hlustunartónleika
Eins og fram hefur komið er fyrsta plata Sprengjuhallarinnar tilbúin úr hljóðverinu, þó enn sé rúmur mánuður í útgáfu. Af því tilefni hefur nýtt lag verið sett í spilun og heitir það Glúmur. Í dag og gær voru Sprengjuhallarmeðlimir duglegir við að kynna lagið á útvarpsstöðvum landsins. Tekið var stutt spjall á Rás 2, Bylgjunni, X-inu, FM og Reykjavík FM. Spurning hvort við þyrftum samt ekki að drífa okkur á Útvarp Sögu og Létt-Bylgjuna. Vonandi verða þessar stöðvar sér samt út um lagið þó við höfum ekki heimsótt þær. Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að Glúmi verði vel tekið enda léttleikandi lag í stórgóðri útsetningu með fróðlegum texta. Áfram Glúmur.
Í gær kom Sprengjó fram á tónleikum í Hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð til styrktar för Hamrahlíðarkórsins til Kína. Það voru aðeins fyrrverandi "MH-hljómsveitir" sem stigu á stokk og þarna komu fram ásamt Sprengjuhöllinni Stuðmenn, Baggalútur, djasshljómsveitin Barpar, Hjaltalín og Páll Óskar. Það var smekkfullt út úr dyrum og stemningin alveg einstaklega góð. Sprengjuhöllin þakkar kærlega fyrir sig og telur sig heiðurs aðnjótandi að hafa fengið að spila á þessum tónleikum.
Að lokum er rétt að minna á hlustunartónleika Sprengjuhallarinnar annað kvöld (laugardag). Þeir fara fram á tónleikastaðnum Organ og byrja upp úr kl. 20. Þá verður nýja Sprengjuhallarplatan leikin í gegn tvisvar, svo mun austurbæjarhljómsveitin Retro Stefson stíga á svið, því næst mun Sprengjuhöllin leika lög af plötu sinni og að lokum mun DJ Alenheimer trylla fólk lengst fram eftir nóttu með skífuþeytingum. Miðaverð er 1000 krónur og hægt er að kaupa miða í forsölu á midi.is og þegar hafa fjölmargir miða selst. Gera má þó ráð fyrir að einnig verði hægt að kaupa miða við innanginn. Þá þykir okkur miður að þurfa að tilkynna að það fylgir ekki frír bjór með miðanum, eins og áður var haldið fram. Ekki náðust samningar við bjórinnflytjendur eins og vonir stóðu til. Gangi okkur betur næst.
Endilega mætið á Organ og fagnið nýrri plötu með okkur lengst fram á nótt. Við lofum ykkur geysigóðu stuði. Sjálfir verðum við á Organ allan laugardaginn að æfa okkur og til að ná fram góðum hljóm í húsið. Við munum sýna metnað. Vonandi sjáumst við. Kveðja, Sprengjuhöllin.
Athugasemdir
Ég mæti
Davíð Skúlason (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 10:46
Við mætum hress og kát. Jafnvel þó þetta verði bara "venjulegir" Sprengjuhallartónleikar þá er þetta það besta sem maður getur gert á laugardagskvöldi. Hlökkum til.
Viðar F. Árnason + Sulla (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 10:55
Ég er svo heppinn að vera kominn með miða.
Hábeinn heppni (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 12:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.